Það kenndi mér góður prófessor í guðfræði, að presturinn, sem fer í stólinn að prédika, á vissulega að hafa Biblíuna í annarri hendinni, en í hinni á hann að hafa dagblað.
Hann átti þar við að prédikarinn verður að vera með á nótunum hvað er að gerast í heiminum og það, sem meira er, hann verður að vera þess albúinn að taka til þess afstöðu. Þetta er þó ekki eitthvað sérverkefni prédikarans. Það er nú einu sinni þannig að í okkar trú og siðum felst að ábyrgð er lögð á hvern og einn sem trúir og fylgir Kristi, að hann sé hvort tveggja í senn, rótfastur í sinni trú en stöðugt að taka afstöðu til þess er gengur til í veröldinni. Dagblaðið í annarri hendinni merkir hér að hinn kristni maður þarf að vera upplýstur um það sem er að gerast í heiminum, en það merkir ekki að hann eigi að berast eð straumnum, eða hrífast af tíðarandanum.
Þó er það svo að margt er það sem kallar á athyglina og margt grípur hugann. Sumt glepur auðvitað eins og gengur, en annað getur verið þess valdandi að fanga hreinlega hugann. Í öllum tilfellum verðum við öll að temja okkur að skoða allt sem við sjáum með nauðsynlegri gagnrýni. Þar sem ég hef sjálfur unnið sem blaðamaður um skeið og reyndar ritstjóri um nokkurra ára bil, er mér fullkunnugt um það, hvað valdið getur því að um einstök mál er fjallað en önnur ekki, og einnig því hvernig fjallað er um málin. Efnistök fjölmiðla hafa verið til umfjöllunar og verða fjölmiðlamenn greinilega að fara að hugsa sinn gang, og þó sérstaklega gula pressan, sú óábyrga, hvort hún geti verið alveg óábyrg eða setji sér einhver mörk yfirhöfuð. Sú umræða hefur reyndar á sér hlið, sem lítið hefur borið á en þó er einn og einn hugsandi maður að ympra á því í vönduðum blaðagreinum, hvert við erum í raun að stefna – ekki bara í þessari gulu pressu sem slíkri – heldur í þessu þjóðfélagi. Er þar bryddað upp á þeirri hugsun, hvort nú sé í auknum mæli verið að setja hinni frjálsu hugsun vestrænnar menningar skorður í meiri mæli en verið hefur, sérstaklega út frá þeirri ógnaröld, sem hryðjuverk hafa valdið, og á þeirri öld, sem viðbrögð við hryðjuverkum eru allsráðandi. Lög gegn hryðjuverkum eru að líta dagsins ljós hér og þar og eru það mikið í deiglunni, að þau eru meðal fyrstu viðbragða stjórnvalda í Bretlandi núna en áður í Bandaríkjunum. Á sama tíma og við erum að tala um það hér heima að það nái nú ekki nokkurri átt að vera að fjalla svona mikið um skilnaði og annað í einkalífi vinsæla fólksins, jafnvel þótt pressan sé gul, þá er á sama tíma verið að setja lög, sem heimila stjórnvöldum að fara algjörlega ofan í einkalíf fólks, með símahlerunum og skoðun á pósti og svo framvegis. Eftirlitsmyndavélar á fjölförnum stöðum eru þegar orðnar eins sjálfsagður hlutur og götuljósin. Og þá fer nú að verða stutt í “Veröld nýja og góða” samkvæmt bók Aldous Huxley, “Brave New World”. Það fer að verða æði stutt í tilheyrandi stjórnlyndi. Það verður að segjast eins og satt er, að lýðræðið okkar er auðvitað frábært fyrirbæri í menningarsögulegu tilliti og við aðhyllumst það einsog það birtist í félagslegri, pólitískri og menningarlegri mynd í öllu okkar lífi. En það er viðkvæmt og viðkvæmast er það fyrir stjórnlyndinu. Versta mynd þess, og ein sú augljósasta á síðustu öld, var auðvitað alræðið í þriðja ríki Hitlers og í veldi Mussólínis og Stalíns, en það er reyndar alltaf að skjóta upp kollinum aftur og aftur. Á síðustu árum sjáum við augljósar myndir alræðis í allt of mörgum ríkjum heimsins og eru sum þessara ríkja æði fjölmenn. En það, sem er hættulegast fyrir hina lýðræðislegu hefð okkar, er þó vitaskuld það, sem stendur okkur næst, að stjórnlyndi sé að færast í aukana í okkar menningu, sem afleiðing af upplausn eða utanaðkomandi ógn, en það er meðal þess, sem kemur fram í ræðum og viðbrögðum þjóðarleiðtoga víða um heim, einmitt núna. Eða eins og Birgir vinur minn Guðmundsson á Fréttablaðinu orðaði það svo ágætlega þegar hann talar um bylgju stjórnlyndis í kjölfar hryðjuverkaárása, er samhliða eðlilegum öryggisráðstöfunum, túlki öll álitamál þröngt, stjórnsemi í hag, en einstaklingsfrelsinu í óhag. Á sama tíma hringja viðvörunarbjöllur hjá alþjóðlegum samtökum um að lög gegn hryðjuverkum gangi nærri eða skerði um helming þeirra staðla, sem sett hafa verið um lágmarks mannréttindi í heiminum. Við þurfum að vera á verði gagnvart því, sem fram fer í veröldinni og einkum því þegar hinn heimski heimur fer að alhyllast meira og meira stjórnlyndi. Þá fer hann fljótlega – eða er reyndar oft búinn að gera það – að byggja sér múra og vígi. Við þessi eldri munum vel járntjaldið er skipti Evrópu í tvennt um langan tíma eftirstríðsáranna og nú eru stjórnvöld að byggja slíka múra víðar í heiminum, meðal annars í Landinu helga. Ekkert er heilagt fyrir stjórnvaldsaðgerðum alræðisins. Og þá erum við komin æði nærri kjarna málsins, að stjórnlyndið verndar oftast nær, fyrst og fremst þá, sem vilja áfram stjórna. Við sjáum þessa tilhneigingu líka hér heima þótt sá heimur sé ef til vill ekki stór. Það má fjalla um einkalíf fólks, en bara ekki Bubba. Það má lögsækja meinta fjárskotsmenn en bara ekki Jón Ásgeir. Það má vinna gegn samráði og klíkuskap í viðskiptum, en bara ekki að vinna gegn olíufélögunum. Þau má ekki snerta og engu hefur verið breytt þar á bæ þótt réttlætið verði auðvitað að hafa sinn framgang hjá öllum öðrum. Það sér hvert barn að í samfélagi okkar á réttlætið langa og á stundum viðsjálverða göngu fyrir höndum. Og áfram heldur þetta hjá okkur. Það má ekki aka utan vegar og skemma gróðurinn, en Clint Eastwood má sprengja allt í tætlur á Reykjanesinu. Það má líka sökkva landinu fyrir austan undir uppistöðulón og þannig má lengi telja, enda er stjórnlyndi peningavaldsins það, sem öllu ræður og öllu kemur til leiðar samkvæmt þeim tíðaranda, er við lifum við á þessum síðustu tímum.
En svo kemur dagur, sem verður ekki venjulegur dagur. Þá mun hin rangláta kynslóð verða dæmd af verkum sínum. Þá verða ekki bara ódæðismenn og illgjörðarmenn hvers konar dregnir fyrir dóm, eins og heimurinn gerir, heldur verður hvert mannsbarn að svara fyrir sig, með sjálfum sér einum eða einni. Þann dag, sem jafnan er þó kallaður hinn blessaði dagur, mun réttlæti Guðs ná fram að ganga. Og þá mun það rætast, sem segir í spádómsbók Jesaja, “Látið upp hliðin, svo að réttlátur lýður megi inn ganga, sá er trúnaðinn varðveitir og hefir stöðugt hugarfar.” Þetta er bæn hins trúaða og ef við erum einlæg eins og við höfum verið helguð til í hug og hjarta, biðjum við þessarar bænar: að Drottinn alsherjar hafi í raun lagt okkur veg, sem er vegur hins réttláta, vegur til góðs. En það réttlæti, sem varðar þennan veg, tekur öllu rétlæti heimsins fram og fer ekki í nokkurt manngreinarálit. Og þá reynir á hvort við höfum gengið til góðs, götuna fram eftir veg eða ekki. Höfum við þegið þær gjafir, sem Guð hefur að okkur rétt, með réttu hugarfari. Hefur það hugsanlega verið til ágóða eða sérhygli, til ofríkis eða yfirgangs? Um allt þetta verðum við krafin, svo það er eins gott að fara að búa sig undir það, nú þegar, ef við höfum ekki hugleitt framferði okkar í þessu stóra samhengi fyrr. Já, hvað höfum við lagt á vogarskálar réttlætis í þessum brogaða heimi? Höfum við hlýtt orðum Guðs og boðum og þar með byggt líf okkar á því bjargi. Dæmisagan um mennina, sem byggðu hús sín, annar á bjargi og hinn á sandi, á ekkert skylt við lóðabrask í Reykjavík. Í raun og veru hefur bjargið alltaf verið til staðar, en spurningin er hins vegar hvort við höfum áttað okkur á því að við stöndum á þessu bjargi. Ekki blasir það við ef litið er til þess hvernig gildismatið í þessum heimi hefur breyst. Það er næstum því eins og talað úr fjarska fyrir þennan heim okkar í dag, þegar við höldum fram spádómi þeim, sem koma mun yfir heiminn, samkvæmt orðum Guðs. Vissulega er textinn úr fornöld en hann er talaður fram í tímann, út yfir alla tíma, til allra kynslóða og allra, sem lífsanda draga, þegar kemur að hinu endanlega gildismati og hinu endanlega réttlæti. Það er réttlæti, sem maðurinn getur ekki keypt, hversu mikil, sem útrás fyrirtækisins virðist vera og hlutafjárstaða hagstæð. Þar talar spámaðurinn fyrir munn þess er Guðs, er öllu ræður og öllu veldur á öllum tímum:
“Treystið Drottni æ og ætíð, því að Drottinn, Drottinn er eilíft bjarg. Hann niðurlægir þá, sem byggja á hæðum. Háreistu borginni steypir hann niður, hann steypir henni til jarðar og leggur hana í duftið. Fætur troða hana niður, fætur fátækra, iljar umkomulausra. Vegur hins réttláta er sléttur, götu hins réttláta ryður þú.”