Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Undurfagra ævintýr, ágústnóttin hljóð.
Um þig syngur æskan hýr, öll sín bestu ljóð.
Nú eru ágústnætur og helgin sú sem þetta ljóð talar til er nýliðin.
Hvít tjöld, heimafólk og vinaþel. Allir velkomnir, söngur, gleði, kökur og reyktur lundi.
Það er ekki sjálfsagt að akp kálfur eins og ég, finni mig á slíkri hátíð, og það sem heimamaður. En í fyrsta skiptið með góðri aðstoð, tjald yfir fjölskyldu og vini og gott samfélag í kring varð helgin að góðri minningu.
Í fjarlægð fær þetta tjaldasamfélag og þessi dalabyggð, oft ósanngjarna meðhöndlun og umræðu. Ofbeldismál, eiturlyf og áfengi verða aðalatriði, en samfélag kynslóðanna, vináttan og söngurinn gleymist í þeirri umræðu. (og oft sjálfsagt vegna vanþekkingar þess sem flytur frétt)
Brúun kynslóðabilsins, söngur og vinátta er án efa upplifun og reynsla flestra, að minnsta kosti heimamanna – og það er gott að þakka.
Mér skilst að skuggahliðarnar hafi verið í fæsta lagi um liðna helgi hér í Eyjum, en þó voru einhverjir sem öðluðust ekki sæta upplifun eins og mín fyrsta upplifun varð.
Ungur drengur varð fyrir hrottalegri líkamsáras og mun eiga erfitt að ná sér að fullu eftir hana.
Syndin er lævís og lipur segir eitt skáldið á góðum stað. Og ungur drengur verður fyrir skaða á líkama og sálu.
En við tekur án efa dómsmál og réttarkerfi okkar mun vonandi fullnægja réttlætinu, en eftir stendur brotin sál og hugsanlega einstaklingur með varanlega líkamsskerðingu.
Hvernig getur nokkur náð sátt með slíkan skaða, fyrirgefið slíka fólsku?
Gamla testamentið segir elskaðu vini þína en hataðu óvini þína. Það er án efa sú tilfinning sem sprettur upp hjá þeim sem lendir í slíkum hremmingum, það er að vera reiður og hata óvini sína, þann sem leikur viðkomandi svo grátt. Það er svo mannlegt að reiðast. En Jesús segir:,,elskaðu náungann eins og sjálfan þig…” og um óvininn segir hann: ,,Biddu ekki aðeins fyrir vinum þínum heldur einnig fyrir óvini þínum…”
Með hatur og reiði í hjarta er nær ómögulegt að biðja fyrir nokkrum – hvað þá þeim sem gerir manni svo illt. Hafið þið prófað það?
Nú um helgina er þess minnst um heimsbyggðina að 60 ár eru liðin frá einni hryllilegustu hryðjuverkaárás sem skekið hefur heimsbyggðina.
Nú eru um 60 ár síðan Bandaríski herinn varpaði kjarnorkusprengjum á japönsku borgirnar Hirosima og Nagasaki.
Sprengjurnar stráfelldu þá sem fyrir þeim urðu og afleiðingarnar létu á sér kræla í ár og áratugi á eftir, vegna geislunar og annarra fylgifiska.
Stuttu síðar lauk síðari heimsstyrjöldinni, og vilja sumir meina að með þessari ,,fórn” hafi lífum verið bjargað því stríðið hefði haldið áfram með enn meira blóðbaði – en því verður aldrei svarað með vissu.
Fjöldamorð á saklausu fólki er að verða algengari veruleiki í heimi okkar, og færist okkur nær. New York, Madrid, London.
Hagsmunabarátta, stolt og kannski ólíkir menningarheimar og trúarbrögð eru drifkraftar slíkra voðaverka.
Húskarlavígin í Njálu finnst mér oft vera býsna lík samskiptum stórþjóða í dag. Og einnig bróðurvígið á fyrstu síðum Ritningarinnar, er Kain drap bróður sinn Abel.
Hvernig er hægt að sætta, fyrirgefa það sem liðið er, taka breyskleika og eðli mannsins í sátt?
Að fyrirgefa getur verið erfitt.
Þetta hugtak fyrirgefning er oft ofnotað, misnotað. Í daglegu tali, er það oft notað í merkingunni að gleyma atburði og halda áfram. ,,Æ svona fyrirgefðu maður…!” Og þá á sá sem brotið er á bara að jánka og hugsa sem svo að atburðurinn sé gleymdur og grafinn.
Slíkt getur verið alvarlegt, hættulegt.
Ofbeldissambönd, hjónabönd eða samskipti annarra ættingja geta verið dæmi um slíkt. Þar sem ofbeldi, vanræksla eða yfirgangur viðgengst í mánuði og ár í skjóli þessa skilnings. Þá er þolandinn stöðugt fórnarlamb, og tekur einhliða ábyrgð á sáttagjörðinni, tekur við afsökunarbeiðni og heldur síðan áfram sömu samskiptum, engin breyting verður á, sá sem er brotlegur breytir ekki sinni hegðun.
Þegar öllu er á botninn hvolft er hvergi að finna þann skilning að ofbeldið eigi að halda áfram og annar að fórna lífi og limum í ofbeldissamskipti við maka eða nákominn.
Það er stundum sagt að fyrirgefningin sé ferli. Það geti tekið langan tíma að fyrirgefa, og má líkja því ferli við ákveðna göngu, skref eru tekin í ákveðna átt.
Að fyrirgefa getur falið í sér sáttagjörð þar sem aðilar byggja samskipti sín upp að nýju, á nýjum grunni. Fyrirgefning getur einnig falið í sér að slit verða á samfélagi, og fólk fer sína leið.
Hvað með þann sem framkvæmir verknaðinn? ,,Sæll er sá er afbrotin eru fyrirgefin…” segir sálmaskáldið í Davíðssálmi 32.
Það er birgði að hafa gert á hlut annars, og léttir að vera fyrirgefið, léttir þegar allt er upp á borðinu, enginn ,,geymir svik í anda” (Sl 32.1-2), það þekkjum við án efa öll.
Við finnum létti, frelsi frá því sem áður sveið. Að vera fyrirgefið krefst hins vegar breytinga til batnaðar.
Það segir á einum ágætum stað í helgri bók, eitthvað á þá leið: Ef þú kemur fram fyrir altari, Drottins þíns, til fórna en hefur gert á hlut náunga þíns, farðu þá fyrst, til að sættast við náunga þinn, komdu síðan aftur og berðu fram þína fórn. Þannig áhrif á Orðið að hafa – til sátta milli manna, til að þeir fyrirgefi hver öðrum, líkt og Guð vill í öllum aðstæðum taka manneskjuna í sátt.
Guðspjall dagsins segir frá konu sem dæmd var af samfélaginu. Það er sagt hún hafi verið bersyndug. Sem þýðir að það hafi verið á allra vitorði að hún gerði ýmislegt misgott. Kannski hefur hún verið vændiskona, hún var að minnsta kosti í stöðu hins fordæmda.
Hún féll til fóta Jesú, smurði fætur hans dýru smyrsli, grét og vætti fætur hans með tárum sínum, og þerraði með hári.
Það var ekki út af því að hún kyssti og þvoði fætur Jesú, sem Jesús fyrirgaf henni syndir sínar, heldur kom hún svona fram við Jesú af því hún fann að hann fyrirgaf henni.
Hún vildi þakka. Hún fann létti, henni var svo létt að finna að hún var ekki hin brotlega lengur.
Jesús sagði: ,,Syndir þínar eru fyrirgefnar…” Trú þín hefur frelsað þig, far þú í friði!” (Lk. 7: 49-50)
Far þú í friði. Á öðrum stað segir hann við svipaðar aðstæður, ,,syndga ekki framar!”
Það er kannski meginboðskapur Jesú. ,,Syndir þínar eru fyrirgefnar – syndga ekki framar.” Sá sem brýtur verður að hætta, hvort sem það er ofbeldi á heimi, stríð milli þjóða eða eitthvað þar á milli.
Alvarleiki dauðans og trúin á Jesú segja okkur að Jesús sé Guð, og geti því fyrirgefið syndir.
Stundum er það ekki í mannlegum mætti að fyrirgefa náunganum. Kynferðisafbrot, morð og ýmsa vanrækslu er erfitt að ná sátt með, en það sem útaf stendur og ekki er á okkar valdi að höndla, getum við beðið Guð að taka við, beðið á þeim nótum fyrir ,,óvinum” okkar, eða þeim sem gera á okkar hlut, að Guð taki frá okkur allar vondar tilfinningar og hjálpi okkur að fyrirgefa. Létti byrgðinni, hvort sem við erum þolendur eða gerendur.
Það er nefnilega merkilegt hvað bænin gerir. Fólk biður gjarnan til að hafa áhrif á heiminn í kringum sig, en iðulega er það nú svo að bænin hefur hvað mest áhrif á þann sem biður.
Ef við berum kala til Stebba í næstu götu, þá er magnað að prófa að biðja fyrir honum, eitthvað gerist nefnilega í okkar eigin hjarta – kalinn minnkar og stundum hverfur, þar mætir andi Guðs ávallt með sitt bænasvar. Stebbi skánar kannski ekki en bænin ber okkur nýjar leiðir, og áður óþekktir möguleikar opnast.
Það er á þær brautir sem Kristur vill leiða þann sem trúir. Fæðing Jesú, störf hans, dauði og upprisa, fela í sér ákveðna sáttargjörð. Guð er ekki refsandi Guð heldur náðugur og miskunnsamur. Sem þýðir kannski á íslensku, faðmur hans er ávallt opinn þeim sem snýr sér til hans.
Jesús hinn upprisni frelsari tekur í sátt þá sem brotið hafa, og þerrar tár þess sem brotið er á. Hann tekur við tárum þess sem syndin brennur á og leysir hinn brotlega undan því oki sem breyskleiki mannsins fjötrar hann í.
Kristin trú vill ætíð leiða hinn trúaða á brautir frelsis og sátta.
Fyrir kærleika sinn og náð sé Guði dýrð, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.
Bæn frá biskupi Íslands:
Nú þegar sextíu ár eru liðin frá því að kjarnorkusprengjan féll á Hiroshima og heimstyrjöldinni síðari lauk, skulum vér minnast þess og biðja fyrir friði.
Friðarins Guð, ásamt með fólki af ótal þjóðum og kynþáttum um allan heim biðjum vér þig um hjálp til að sjá hvert annað sem systur og bræður en ekki féndur og ókunna.
Vér biðjum fyrir fórnarlömbum styrjalda, fyrir þeim sem lifðu af kjarnorkusprengjuna í Japan og fyrir þeim sem enn líða vegna stríðs og ofbeldis. Megi milda og læknandi hönd þín snerta þau og blessa.
Vér biðjum fyrir leiðtogum þjóðanna, fjármálanna, hernaðar. Lát þinn friðaranda leiða þá til að binda endi á þjáningar af völdum stríðs og ofbeldis.
Vér biðjum um anda iðrunar. Vér játum frammi fyrir þér, að vér höfum verið treg til bæna og ófús til sátta og að vinna að friði milli manna og þjóða. Hjálpa oss að smíða brýr í stað múra.
Biðjum þess að vér verðum friðflytjendur, að vér setjum ekki traust vort á oss sjálf, hernaðarmátt og efnahagslega yfirburði, né önnur máttarvöld þessa heims, heldur aðeins á þig einan, skapari vor og lausnari.
Þú sem prísar friðflytjendur sæla og styður þá. Veit oss styrk og leiðsögn orðs þíns og anda til að bera fagnaðarerindinu vitni og framganga í friði og sáttargjörð.
Fyrir Jesú Krist, Drottinn vorn.
sr. Þorvaldur Víðisson