Vertu Guð faðir, faðir minn
í frelsarans Jesú nafni.
Hönd þín leiði mig út og inn
svo allri synd ég hafni.
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Þáttur var í sjónvarpinu um daginn, um presta og annað kirkjunnar fólk, meinlæti og skírlífi, og annað sem því tengist í sögu og samtíð.
Þar var varpað ljósi á margt hrikalegt, þar sem prestar beittu ofbeldi, kynferðislegu sem öðru.
Tvítugur maður var stunginn í Reykjavík, aðfararnótt laugardagsins síðasta og annar í nótt. Megi góður Guð vaka yfir aðstandendum þeirra sem og öðrum sem þeir harmleikir snerta.
Prestur Garðasóknar skal fluttur til í starfi. Deilan sem hefur sett vondan svip á kirkjuna, vonandi að leysast. Og þannig að allir geti vel við unað.
Eiginmaður og eiginkona skilja. Eftir 18 ára hjónaband var hann kominn með viðhald, og grundvöllur fjölskyldunnar brast.
Vinur greinist með MS. Gildismat lífsins skyndilega umturnast. Parket eða flísar, Rás 1 eða Skjár einn, skiptir ekki lengur máli, heldur það hvort morgundagurinn gefi heilsu til lífs, hvort hinn sjúki fái að sjá sólina koma upp í austri. Fái áfram að taka þátt í lífinu. Hver dagur verður náðargjöf.
Litlar myndir settar hér fram, sumar sem við öll höfum heyrt af og könnumst við, aðrar persónulegar.
Það er víst svo að öll eigum við okkar persónulegu myndir af lífinu, gleði og sorg, er við eignumst og þegar við missum.
Það er lífsins gangur að eiga og unnast, missa og syrgja. Hvort sem um er að ræða heilsu og styrk, atvinnu og félagslegt líf eða umgengni við fjölskyldu og ástvini, eða annað lífinu tengt.
Þið hafið heyrt, að sagt var: ,,Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn!”
En ég segi yður: ,,Elskið óvini yðar, og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður…” segir frelsarinn í guðspjalli dagsins.
Ég reikna nú með að flestir hér inni eigi ekki marga svokallaða óvini, í þeirri merkingu orðsins að maður eigi í baráttu við nágranna eða beinlínis hati einhvern í lífinu – þó svo dæmin séu án efa til.
Víða í Ritningunni er talað um óvininn, þann með hornin og halann. En hann er gjarnan tákn fyrir allt það sem miður fer í okkar mannanna heimi.
Óvinurinn í orðum Jesú og þeir sem ofsækja okkur, geta því tekið á sig margar myndir í lífinu. Verið einstaklingur með vafasama fyrirætlan, verið atburður, verið sjúkdómur eða annað sem brýtur niður okkar líf.
Jesús segir: Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður…!”
Það var maður sem ég kannaðist við fyrir allmörgum árum sem lifði lengi með krabbamein, og steig þá glímu hart. Hann gaf frá sér ljóðabók, þar sem hann glímir við sjúkdóminn, við þennan óvin sem var að ofsækja hann. Í ljóðabókinni talar hann við sjúkdóminn, eins og maður við mann og að lokum nær ákveðnum friði.
Að afneita, hata og reiðast eru allt mannleg viðbrögð við erfiðleikum, missi eða öðrum ógnum sem að okkur steðja.
Við þekkjum það flest að slíkar tilfinningar og slík staða er verst fyrir þann sem á þær tilfinningar. Verst fyrir þann sem þannig líður. Þær tilfinningar tæra mann upp, éta mann innan frá.
Þess vegna segir Jesús: ..elskið óvini yðar!” að elska er svo stórt orð. Agape, fílíos, eros. Hér notar Jesús þá merkingu sem gríska orðið agape nær best til. Það er hin alltumvefjandi elska, elska sem er án skilyrða, elska sem okkar íslenska orð kærleikur nær kannski betur til.
Páll postuli talar einmitt um kærleikann, eins og lesið var úr pistlinum áðan, og er lesið við allar hjónavígslur í kirkjum landsins.
,,Þótt ég talaði tungum mann og engla, en hefði ekki kærleika, væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla. Og þótt ég hefði spádómsgáfu og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking, og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú, að færa mætti fjöll úr stað, en hefði ekki kærleika, væri ég ekki neitt. Og þótt ég deildi út öllum eigum mínum, og þótt ég framseldi líkama minn, til þess að verða brenndur, en hefði ekki kærleika, væri ég engu bættari. Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum. Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.“ (1. Kór. 13:1-8a)
(1Kór 13:1-7)
Þetta er nú einn fallegasti og sannasti texti Páls postula, sem geymdur er í fyrra Kórintubréfinu, og ávallt lesinn við hjónavígslur.
Það virðist á stundum erfitt að lifa í hjónabandi. Skilnaðir sýna það. Ég minnist svars eins eiginmanns sem fagnaði 50 ára brúðkaupsafmæli með konu sinni. Hann var spurður hvað þyrfti til? Hann svaraði eitthvað á þá leið: ,,Ég reyni ekki að stjórna hennar lífi…!” svo þagnaði hann um stund og hélt síðan áfram: ,,og ég reyni heldur ekki að stjórna mínu eigin lífi!!”
Það hefur án efa hjálpað í því öllu saman að eiga jákvæðni og húmor. Létt en örugg samskipti.
Því kærleikskrafan eins og hún birtist í guðspjalli dagsins og einnig hjá Páli postula er ærin.
Jesús endar orð sín þarna á því að segja: ,,Verið fullkomnir eins og faðir yðar himneskur er fullkomin!”
Í Keflavíkurkirkja geymir altaristaflan einmitt þess yfirskrift: ,,Verið fullkomnir eins og faðir yðar á himnum er fullkominn!”
Þessi krafa felur í sér hinn mögulega ómöguleika. Hvernig á manneskjan að geta verið fullkomin eins og skaparinn sjálfur? Það er mjög göfugt markmið sem maðurinn kannski nær aldrei að fullu. Það er kannski ekki af tilviljun að Kristur kennir lærisveinum sínum faðir vorið þarna í næstu orðum guðspjallsins.
Með það á vörum getur maðurinn lifað réttlættur af trú, lifað lífi vonar, lifað lífi gleði og hamingju sem trúin á hinn krossfesta og upprisna veitir.
Guð sendir hinn réttlætta synduga þjón að boða orðið, að lifa lífinu sem er Guðs náðuga gjöf.
Jesaja spámaður talar einmitt um þetta líka, um kærleikann og þjónustuna, um lífið allt. Þar segir spámaðurinn en af sumum hafa skrif hans verið nefnd fimmta guðspjallið:
,,Nei, sú fasta, sem mér líkar, er að leysa fjötra rangsleitninnar, láta rakna bönd oksins, gefa frjálsa hina hrjáðu og sundurbrjóta sérhvert ok, það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu, hýsir bágstadda, hælislausa menn, og ef þú sér klæðlausan mann, að þú þá klæðir hann og firrist eigi þann, sem er hold þitt og blóð. Þá skal ljós þitt bruna fram sem morgunroði og sár þitt gróa bráðlega, þá mun réttlæti þitt fara fyrir þér, dýrð Drottins fylgja á eftir þér. Þá munt þú kalla á Drottin, og hann mun svara, þú munt hrópa á hjálp og hann segja: Hér er ég!”
Og Drottinn mun segja ,,hér er ég!” Og einmitt þrátt fyrir breiska þjóna orðsins, þrátt fyrir hörmulegt ofbeldi og morð, þrátt fyrir hörmulega sjúkdóma og erfiðleika lífsins – og kannski einmitt þess vegna segir Drottinn: ,,Hér er ég!”
Hér er ég við hlið mannsins í öllu hans lífi, hér er ég til að þerra hvert tár, til að gráta við mannsins hlið, en einnig til að lyfta honum upp og gleðjast er hamingjan og gleðin sækir manninn heim. Og allt þar til að Kristur reisir manninn á ný, til nýrrar dögunar, til nýrrar sólarupprásar í austri.
Fyrir bænina og nærveru sína sé Guði dýrð, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.
Sr. Þorvaldur Víðisson