Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
Alla ævina okkar erum við að læra að eignast.
Við eignum menntun. Ræktum hæfileika okkar og getu á hinum ýmsu sviðum. Eignumst kæröstu/kærasta. Og síðar hugsanlega eiginkonu/eiginmann, börn, bíl og hús, hund og kött. Og allt annað sem við sönkum að okkur.
Alla ævi lærum við að eignast!
En við höfum aldrei lært að missa. Nema þá helst í gegnum erfiða reynslu lífsins.
Það er svolítið merkilegt í ljósi þess að það er það eina örugga sem við vitum um lífið okkar er að því á eftir að ljúka.
Dauðinn er fylgifiskur alls lífs, óhjákvæmilegur. Enginn sleppur undan honum.
Eins og blómstrandi blómið sem gleður okkur í dag, visnar og deyr. Eins mun ævi okkar þverra.
Þetta er nú meiri neikvæðnin í prestinum í dag. Þetta eru nú meiru þungu orðin! En þau eru sönn – eins langt og þau ná!
Lífsreynslan er misjöfn í brunni okkar. Sumir þurfa að glíma við heilsubrest og sjúkdóma.
Allir þurfa einhvern tíman í lífinu að sjá á eftir einhverjum sér nákomnum. Og sumir kveðja ungir.
Þrátt fyrir að heimurinn skuli vera þessi dýrindis kraftaverkastaður, eins og við sjáum hér í umhverfi eyjanna, er hann að einhverju leyti svo brothættur, svo sár að þessu leyti.
Einmitt mitt inn í þennan veruleika talar Davíðssálmurinn í dag:
,,Úr djúpinu ákalla ég þig Drottinn. Drottinn heyr þú rausn mína.
(…)Ég vona á Drottinn, sál mín vonar og hans orðs bíð ég.”
Jesús Kristur hefur þekkt þessi orð eins og þau öll úr Davíðssálmum. Orðin úr 22 Davíðssálmi sagði hann á krossinum í angist þjakaðs manns: ,,Guð minn Guð minn hví hefur þú yfirgefið mig.”
Úr djúpi sársauka og sorgar, missis og harms, mannlegs veruleika ákallar maðurinn Drottinn. Biður þann sem vakir, almættið, að vera sér nærri.
Einmitt þess vegna kom Jesús Kristur í heiminn.
Til að frelsa, til að reisa við hið fallna, til að kenna okkur nýja leið, til að leiða okkur nýjan veg. Leiða okkur veginn til vonar og trúar á upprisuna og eilíft líf. Og það getur hann best af öllum því hann hefur sjálfur gengið mannsins veg lífs og missis. Alla leið á krossinn og í dauða, en ekki nóg með það heldur til upprisu og eilífs lífs.
Í guðspjalli dagsins í Jóhannesarguðspjalli hittir Jesús þær systur Mörtu og Maríu.
Þarna er sagt frá því að Lasarus bróðir þeirra hafði dáið.
Jesús spyr þær systur um trúna, á hvað þær trúa. Í einrúmi eru þær spurðar, hverju þær trúi um lífið og dauðann.
Þær játa báðar trú sína á Jesú Krist. Trúna á upprisuna og eilíft líf.
Í framhaldi af því þá reisir Jesús Lasarus frá dauðum, en hann hafði verið dáinn í á fjórða dag og komin nálykt af honum.
En Jesús sagði: ,,Ég er upprisan og lífið, sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi. Og hver sá sem lifir og trúir á mig mun aldrei að eilífu deyja.”
Það er mikill texti, guðspjallatexti dagsins. Hann boðar sigur lífsins, broddur dauðans er brotinn og lífið hefur sigrað, og sigrar enn þar sem trúin á Jesú Krist lifir.
Jesús segir á einum stað: ,,Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið.”
Hann vill lóðsa okkur á lífsins vegi. Eins og lóðsinn hér við höfnina aðstoðar stóru skipin að bryggju, eins vill Jesús lóðsa okkur að lífsins höfn, í hvert sinn er við spennum greipar í bæn til hans. Lóðsa okkur til sannleika og eilífs lífs.
Þessa leið hefur kristinn söfnuður gengið í 2000 ár og gerir enn, og mun gera um aldur.
Fermingarhópar hefja störf hér á hverju hausti, til að kynnast Jesú til að læra hver hann er, til að gera hann að leiðtoga lífsins.
Þess vegna er ánægjudagur í dag, þegar ungmenni ákveða að stilla kompásinn á Jesús, og ætla í vetur að læra hvað í því felst.
Kirkjan er hér þéttsetin af fermingarbörnum og foreldrum.
Við fögnum ykkur hér í dag því við vitum að leiðin framundan er farsæl leið sem vörðuð er af góðum Guði og helgu orði hans.
Nú er upphaf fermingarstarfa hér í kirkjunni.
En í fermingarstörfum ætlum við að kynnast Jesú, til að þið getið játast honum á hátíðlegum fermingardegi og gert hann að leiðtoga lífsins ykkar. Gert hann að lóðsi í ykkar lífi.
Hvers vegna gerum við það ekki bara í dag? Hvers vegna fermist þið ekki bara í dag? Eru þið tilbúin til þess? Er það bara út af venju að við fermum alltaf á vorin, um leið og kálfarnir koma í heimin, og lömbin.
Nei það er nú ekki út af því, heldur fræðsluskyldunni. Það er margt sem við eigum eftir að fara í gegnum með ykkur, spurningar sem þið megið spyrja og ýmislegt sem við prestar ætlum að reyna að kenna.
Í vetur ætlum við að ræða um margt sem skiptir mjög miklu máli. Við ætlum að reyna að ræða öll stóru málin í tilverunni. Og ég vona og bið að þið nýtið veturinn vel, til upplifunar og lærdóms á því hvað það er að fermast.
Páll postuli var einn af þeim sem hélt áfram með að boða Jesús Krist, upprisinn.
En Páll boðaði einmitt þennan veruleika eilífa lífsins til sinna lærisveina.
Það er einmitt til fræðslu á þessu og fleiru sem við köllum ykkur, kæru fermingarbörn, til fermingarfræðslu í vetur.
Ég vona og bið að þið nýtið veturinn vel. Mætið til fræðslunnar áhugasöm um innihald hennar og viljug til þátttöku.
Það er mikið undir ykkur komið hvað þið græðið á vetrinum. Ég vona að þið lærið hvað það er að trúa, finnið nærveru Guðs í ykkar lífi.
Það er mikilvægt að ganga vel um þennan helgidóm eins og aðra helgidóma, og þess vegna vil ég hvetja ykkur foreldra og forráðamenn til að mæta til messuhalds með börnum ykkar, kenna þeim í verki hvernig við komum fram í kirkjunni okkar sitja með þeim í messu.
Það er líka mikilvægt að styðja ungmennin í þessari ákvörðun sinni og jafnvel rifja upp ykkar eigin fermingarvetur. Þannig getum við öll átt góðan vetur fræðslu og þátttöku, og gengið til fermingarathafnar í vor með góða uppskeru í farteskinu.
Á helgum stað segir: ,,Drottinn elskar. Drottinn vakir. Daga og nætur yfir þér!
Fyrir það sé Guði dýrð, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.