Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Jobsbók, gamla testamentisins, segir frá guðhræddum og grandvörum manni sem heitir Job.
Gæfan var hans förunautur og hans heimslóð í lífinu. Hann var réttlátur, kærleikans maður sem þakkaði góðum Guði allar lífsins gjafir.
Jobsbók segir frá því að skyndilega var allt úr hendi hans sópað. Hann missti eignir, búfénað, hann missti maka sinn og börn, allt sem hann gat áður þakkað sá hann nú á eftir.
Reynsla margra án efa, sumra hér í kirkjunni í dag. Job glímdi hart við Guð, og einnig vini sína, heiminn, hvers vegna hið slæma, ógæfan, sækir einnig heim hinn réttláta!
Pétur postuli minnir á það, í pistli dagsins, hve mannlegt líf er stutt, í hinu óravíða hafi heims og eilífðar.
Hann orðar setningar úr 90. Davíðssálmi Gamla testamentisins, sem við þekkjum úr þjóðsöng okkar fagra. ,,… einn dagur er hjá Drottni sem þúsund ár og þúsund ár sem einn dagur.”
Hvar erum við stödd í þeim veruleika, þar sem eilífðin og tíminn kyssast?
Hvar ert þú staddur, kæri kirkjugestur! Hvaðan kominn upp á þessa eyju hér, við alheimsins firnavíða haf, og hér, ja kannski eins og sprek á fjörusandi?
Og hvert muntu berast, þegar brimaldan sogar þig aftur út í hið óþekkta djúp?
Er þér ætlað eitthvað? Er vilji á bak við líf þitt og mitt, hugur sem veit og skilur og sér merkingu í þessu spreki á þessari Eyju sem í hjörtum okkar hér heitir heimaslóð, spreki sem ert þú, í þeirri gátu, sem ert þú?
Og hvað átt þú að gera til þess að finna sjálfan þig, sjá, hver þú ert, hvar þú átt heima?
Þær eru stórar spurningar sem mæta okkur á síðasta sunnudegi kirkjuársins. Spurningar sem maðurinn hefur á öllum tímum spurt, og Job spurði, en Guð einn veit svarið.
Ef það er þá Guð í þögninni. Ef eyru heyra það orð sem drýpur af vörum skapara alls sem er, því þar er svarið! Ef það er hins vegar ekki Guð, þá er ekkert svar.
Viðmælendur Jesú í guðspjöllunum, svo oft Gyðingar, voru ekki í neinum vafa.
Guð hafði talað í orði sínu af fjallinu, á Sínaí. Guð hafði bent þeim veg úr þrælahúsinu í Egyptalandi. En víða vildu viðmælendur Jesú flækja orðin hans. Heródes spurði hvað væri sannleikurinn, lögvitringurinn vildi snúa á hann með lagaklækjum, flækja hann í orðum.
Já okkar mannanna heimur getur verið snúinn. Þar geta þekking og fáviska átt það sameiginlegt að þyrla upp ryki svo menn týna slóðinni heim.
En Jesús svarar þegar þú spyrð um heimaslóð, hvar þú átt heima, þá svarar Jesús þér:
Elska skalt þú Drottinn Guð þinn af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum. Annað þessu líkt: Elska náunga þinn eins og sjálfan þig.
Í þessum orðum sínum dregur Jesús upp svar sem tónar ekki alltaf við okkar heimaslóð. Tónar ekki við þá mynd af heiminum sem við finnum í sjónvarpinu í fréttatímum og afþreyingu dægurþrasins. Hann dregur upp mynd af heimi kærleikans. Elska skalt þú! Það getur verið framandi heimur!
Kannski er ekki síður upplýsandi að líta í eigin barm, opna fyrir myndina þar og skoða hana, með boðorð kærleikans í huga.
Boðorð kærleikans, ríki kærleikans í bláma fjarskans, langt í burtu. En samt: Hvar eigum við heima, ef ekki þar? Hvar viljum við eiga heima, ef ekki þar?
Getur verið að það sé þess vegna sem sé svona kalt á þessari strönd á mótum himins og hafs? Er ekki kalt og hrjóstrugt í mannanna heimi því við erum viðskila við ríki kærleikans?
En Jesús segir! Jesús talar! Jesús vill ná til okkar með sínu kærleikans orði tilgangs og merkingar!
Jesús segir við þig og mig! Þess vegna erum við ekki aðeins fis í fjörusandi, heldur höfum við eyru til að heyra, augu til að sjá!
Það var þeim Guði sem Job fannst hann verða viðskila við. Hann fordæmdi aldrei Guði en hann missti af honum í eigin þjáningu og angist. Job reis hins vegar upp. Hann reis upp úr þjáningu sinni og sorg og sá og heyrði og svaraði með orðum munns síns:
,,Ég veit að þú megnar allt, og engu ráði þínu verður varnað fram að ganga. Hver er sá sem myrkvar ráðsályktun Guðs í hyggjuleysi? Fyrir því hefi ég talað án þess að skilja, um hluti sem mér voru of undursamlegir og ég þekkti eigi. Hlusta þú, ég ætla að tala. Ég mun spyrja þig, og þú skalt fræða mig.” Þessi voru orð Drottins til Jobs og Job svaraði Guði:
,,Ég þekkti þig af afspurn, en nú hefur auga mitt litið þig! Fyrir því tek ég orð mín aftur og iðrast í dufti og ösku.”
Job glímdi hart við skapara sinn, en fann að lokum frið í honum, komst að lokum heim.
Jesús segir í guðspjalli síðasta sunnudags kirkjuársins: Sá sem heyrir orð mitt og trúir þeim, sem sendi mig, hefur eilíft líf og kemur ekki til dóms.
Jesús kennir okkur leið iðrunar og trúar. Hann er höfundur trúarinnar og á hann eigum við von.
Iðrunin er forsenda trúarinnar, forsendar fyrirgefningar og sáttargjörðar manna í millum og milli Guðs og manns.
Guð dæmir eftir gjörðum manns og hjartaþeli. En Guð er langlyndur! Guð vill ekki að neinn glatist á degi Drottins, þegar Drottinn dæmir þennan heim og hvern einstakling eftir iðrun og trú, breytni og hjartaþeli sínu. Heldur vill Guð að allir komist til iðrunar, komist heim í sinn kærleikans faðm.
En Guð dæmir!
Dagur Drottins kemur sem þjófur, sem enginn veit hvenær lætur til skara skríða, því skulum við vaka og biðja og hætta að daðra við dauðann með lífi okkar.
Guð dæmir, en með iðrun og trú, er dómur Guðs sýknudómur yfir þér og mér, sakir Jesú Krists. Vegna Jesú eru allar syndir og hörmungar lífsins teknar og hreinsaðar og Jesús stendur með, reisir við hinn fallna, alla hina föllnu sköpun.
Það er okkar trúarheimur, þar sem allir erfiðleika víkja, þar sem Jesús svalar, líknar, þerrar tárin, sameinar öll mannsins sprek á heimsins stönd, í þeim faðmi sem er kærleikans faðmur Guðs.
Það er okkar heimaslóð.
Því hann hefur verið athvarf kynslóðanna í þessu landi okkar í þúsund ár.
Og við skulum því láta líf okkar vera ljós, sem lýsir í á stundum myrkum heimi náunga okkar.
Láta líf okkar bera bjarma af því ljósi sem lýsir leið manna heim.
Fyrir þá heimaslóð sé Guði dýrð, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.