Það er ekki annað hægt en fyllast auðmýkt í hvert sinn er við lesum guðspjall Matteusar um skírn Jesú. Eitt það fyrsta, sem ber fyrir augu og rétt er að skoða nánar, eru hin sterku viðbrögð Jóhannesar skírara, er hann sér Jesú koma.
Hann hefur þessi eftirminnilegu orð um hann í Jóhannesarguðspjalli: “Sjá, Guðs lamb, sem burt ber heimsins syndir!” Það kveður við annan tón en heyrst hefur frá þessum mikla prédikara, einum mesta iðrunarprédikara allra tíma. Í guðspjöllunum er dregin upp alveg stóbrotin mynd af Jóhannesi. Hann er fyrirrennarinn, brautryðjandinn, rétt eins og segir hjá Jesaja spámanni: Rödd hrópandans í eyðimörkinni. Með því að vitna í þann spádóm voru guðspjallamennirnir að skila því til okkar, öðru fremur að nú færu spádómarnir um Messías að rætast. Rödd hrópandans í eyðimörkinni var tekin að hljóma og berast út yfir óbyggðirnar og inn til borganna. Og eins og við munum barst rödd hans ekki aðeins inn fyrir borgarmúrana heldur alla leið inn í skrautlega sali konungshallarinnar og reyndar alla leið upp í hjónarúm konungsins, því eins og þið munið hlífði hin mikla rödd engum við boðskap sínum. Hinn siðspillti konungur fékk að kenna til iðrunar líka fyrir framferði sitt í kvennamálum.
Mikið óskaplega hefði þessi mikli spámaður úr miklu að moða ef hann kæmi til Íslands í dag því af nógu er að taka í siðblindu, spillingu og valdhroka, að ekki sé minnst á framferði okkar í einkalífinu með öllum þessum síendurteknu brotum á boðorðum Guðs. Hann hefði haft í nógu að snúast í þessum heimi nútímans, þar sem öll boð og bönn þykja bara gamaldags og það á ekki lengur við að fullyrða nokkurn skapaðan hlut um það hvort eitthvað sé rétt eða rangt. Sá sem það gerir er umsvifalaust orðinn fordómafullur, fáfróður eða þröngsýnn, sem mun líklega vera eitt versta skammaryrði sem hægt er að segja um nokkurn mann á okkar tímum.
Jóhannes var boðberi nýrra lífsskoðunar og nýrrar breytni. Hann er sannleiksvotturinn sem leggur ótrauður til baráttu við hið illa og óhreina og hlífist þá hvorki við tignir né völd. Það var því engin furða að farísear gerðu sér ferð út í óbyggðirnar til að þrátta við hann og þrasa, en þar komu þeir ekki að tómum kofanum. Þeir höfðu ekkert í hann né heldur höfðu þeir nokkuð á hann, til að fella hann þá, en margir þeirra leituðu eftir skírn hjá honum ef verið gæti að hann hefði nú rétt fyrir sér. Jóhannes var boðberi heilagra tíðinda sem voru senn að fara að rætast. Prédikun hans snerist um að senn myndi Guð opinbera sig í þessum heimi og sú opinberun myndi eiga sér stað hér mitt á meðal fólksins. Enn var tími, en hann styttist þó óðum, til að iðrast, taka skírn og snúa breytni sinni til betri vegar. Rödd hrópandans í eyðimörkinni hafði hrópað: “Greiðið veg Drottins, gjörið beinar brautir hans!”
Jóhannes skírari minnti fólkið æ meir á hina miklu spámenn löngu liðinna alda í sögu Ísraels og það hreifst af honum og hlýddi kalli hans í hópum. Og þá var það að mitt í þessum klíðum gerðist enn merkilegri atburður, en það var einmitt það sem Jóhannes hafði verið að boða. Guð opinberaði sig í því atviki, þegar Jesús frá Galíleu kom til skírarans í óbyggðunum.
Hápunktur þessarar frásögu er vafalaust þegar þessi mikilúðlegi, strangi og sterki guðsmaður stendur allt í einu augliti til auglitis við meistarann Jesú. Það gerist er Jesús kemur til móts við hann á bökkum Jórdanár. Samstundis skynjar guðsmaðurinn að sú örlagastund, sem hann hafði prédikað að væri í vændum, var nú runnin upp. Hans hlutverki var þar með lokið og úr þessu hlýtur hann að draga sig í hlé. Og hinn mikli spámaður beygir sig allt í einu í auðmýkt fyrir þeim sem er meiri en hann. Hann skynjar að Jesú er máttugri og leggur allt að fótum hans, starf sitt, þjónustu, frægð sína og orðstír, nafn sitt og kennivald – og hann þokar inn í skuggann.
Það er greinilegt að meistarinn á að vaxa, en hann að minnka. Það var merkileg játning af vörum þessa stórbrotna leiðtoga og mikla spámanns. Og hann segir beint við Jesú: “Mér er þörf að skírast af þér, og þú kemur til mín!”
Það er þó ekki þessi auðmýkt Jóhannesar sem er mest um verð, heldur annað og meira, ef við skoðum hjartalag hans og hlutverk aðeins betur. Það var að rætast sem hann hafði þráð svo innilega. Allt var að koma fram sem hann hafði verið að undirbúa með boðskap sínum og lífsstarfinu öllu. Í hjarta hans bærist þessi fagnaðarríka tilfinning sem við finnum stundum forsmekkinn af, að takmarkinu var náð. Bænir hans voru heyrðar. Spámannasýn hans var orðin að veruleika. Þetta staðfestir Jesú með orðum sínum: “Lát það nú eftir. Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti.”
Og þá rennur upp þessi dýrðlega stund, bæði hinn sögulegi heimsviðburður og hið ótrúlega andartak í eilífum skilningi trúarinnar. Er Jesús hafði verið skírður, sté hann jafnskjótt upp úr vatninu og það var þá sem himnarnir opnuðust. Og hann sá anda Guðs stíga niður eins og dúfu og koma yfir sig, rétt eins og Guð legði hönd sína yfir hann í blessun til þeirra starfa sem nú voru framundan. Rödd kom af himnum og sagði: “Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á.”
Hann hafði stigið út í vatnið, sem er tákn hinnar sönnu iðrunar, (ætti að vera gott slagorð fyrir sundlaugina eða sem áróður fyrir heitum pottum) og það hafði Jesús gert eins og allir aðrir sem komið höfðu til Jóhannesar. Sá var munurinn að allt verkið var framundan hjá Jesú, jafnskjótt og Jóhannes hafði lokið sínu.
En það er líka á það að líta að fyrir okkur mennina er þetta svolítið annað, jafnvel þótt við sjáum hér og skiljum þessar fyrirmyndir í þjónustunni við Guð, þjónustunni í heiminum. Kenning Jóhannesar var ströng. Hann var kröfuharður kennimaður en bauð ekki allt linara eins og tíðkast á okkar tímum meðal margra prédikara, sem fyrst og fremst er umhugað að bætakirkjusóknina og vinsældir sínar. Hann var einmitt þekktur og varð frægur allt til okkar tíma, einmitt fyrir það vald sem hann taldi sig hafa til að kveða menn til iðrunar skírnar og afturhvarfs til góðrar breytni. En það var erfitt fyrir ýmsa þótt þeir fyndi til iðrunar að sjá leið til þess að bæta líf sitt og breytni og verða að nýjum mönnum. Jafnvel þótt þeir hefðu stigið út í vatnið, sem tákn hinnar sönnu iðrunar.
Sá dagur sem við minnumst á sunnudegi í föstuinngangi, er tákn fyrir nýja tíma, eða öllu heldur mikil tímaskil. Hér verða bókstaflega mikil vatnaskil í sögunni, þótt þessi tímamót fari ekki mjög hátt hérna úti fyrir eða í fréttamiðlunum. Skilin eru því meiri hið innra með okkur. Við hættum að horfa aftur til jólanna og áramótanna og samkvæmt kirkjulegu almanaki hættir nú að gæta hátíðarbragsins frá jólum og áramótum. Héðan renna öll vötn til Dýrafjarðar, eins og höfðinginn sagði. Héðan renna öll augu upp til páskahátíðarinnar. Í guðspjalli Matteusar hverfa syndirnar með skírninni í Jórdaná í þessu rennandi vatni, eða rétt einsog ameríkanarnir myndu segja: Þessi eða hin atvikin eru “under the bridge” Þau hafa flotið framhjá og eru óðara á leið til sjávar. Búið er gert, en við sanna iðrun og hreinsun með iðrunarskírn, og við breytta breytni, hef ég þá líka skilið við það í straumi lífsins. Þessi straumur hefur borið það burt, rétt eins og þegar Jóhannes sagði um Jesú: “Sjá, lamb Guðs, sem ber burt heimsins synd.” Í því er friðþægingin fólgin en það er efni í margar aðrar stólræður að fjalla nánar um merkingu hennar og hvernig Guð vinnur það verk í hjarta og huga hins iðrandi manns.
Í ljósi þessara vatnaskila í lífi sannra Guðs barna, þá lítum við til þess að Jóhannes er eins og morgunroðinn, sem vitnar um nýjan dag, strax í birtingu. Jesús er þessi nýi bjarti dagur sem nú er runninn upp. Hin rísandi sól morgunroðans varpaði þá þegar fyrstu geislum sínum á skyggðan flöt Jórdanár og mildur blærinn bærði laufkrónur trjánna á árbakkanum. Morgunroðinn boðar þarna komu hins bjarta dags. Jóhannes var fyrirrennarinn, boðberinn, brautryðjandinn. Hans örlög urðu þau að hverfa þegar tíminn var fullnaður og dagurinn ríkti um allan himinn og á jörðu.
Hlutverk Jóhannesar er stórbrotið. Það er hann sem fyrstur sér að Jesús er Guðs lambið, komið til að vinna hið ómögulega verk, að bera allar syndir mannkyns í burtu. Þegar meistarinn ungi frá Nasaret steig fram á sjónarsvið sögunnar, kemur hann í upprás hins nýja dags til Betaníu og þeir tveir mætast við Jórdaná, fyrirrennarinn Jóhannes og Frelsarinn Jesús. Þeir mætast á árbakkanum sjálfur Guðs útvaldi þjónn, þessi fyrirrennari, og hinn elskaði sonur Guðs, frelsari allra manna. Og þeir rétta keflið á milli til að öllu réttlæti verði fullnægt.
Megi það verða til þess að við, sem komum hér saman í Landakirkju, guðshúsinu sem er bæði senn gamalt og nýtt, verða fljót til að bregðast við þessum boðskap dagsins, með tilbiðjendum allar götur síðan þessi atburður átti sér stað, og hefja upp merki hans og þjóna málstað hans eftir bestu getu úti í lífinu sjálfu. Aðeins með því mun líf okkar, þjóðfélagið okkar, samfélagið okkar hér í Vestmannaeyjum komast á þjóðleiðina til heilla. En það er aðeins með því að við greiðum veg Drottins og gerum beinar brautir hans. Aðeins þannig munum við komast á þessa leið til heilla og til betra lífs. Það er leiðin til friðar og til sátta og vináttu manna á meðal. Það er leiðin frá syndinni og öllu því illa, til fegurra, bjartara og betra lífs undir merki sigursins, þess sigurs sem við horfum nú til með rísandi sól og undirbúningi að páskahátíðinni. Lofað og vegsamað og blessað sé hans heilaga nafn. Amen.