Batamessur hafa verið haldnar í nokkur ár í tengslum við afar gott starf Vina í bata og eru allir velkomnir. „Tólf spora andlegt ferðalag“ heita námskeiðin en batamessa er samt sjálfstætt framhald af þeirri mynd sem þau gefa af vinnu með trúarþroska og dýpri skilning á inntaki kristinnar trúar. Nú er batamessa í Landakirkju sunnudaginn 17. maí kl. 11. Kór Landakirkju syngur og leiðir söng og organistinn er Kitty Kovács. Prestur er sr. Kristján Björnsson.
Eitt af því sem einkennir batamessu eru fjórar stöðvar sem fólk gengur á milli í messunni, ljósatendrun, bæn við altarið, smurning með olíu og hreinsun vatnsins. Þá er altarisganga og gott samfélag. Þegar fólk kemur til kirkju getur það tekið með sér stein sem tákn um byrðar sem við leggjum síðan frá okkur á einni stöðinni. Einn fulltrúi Vina í bata mun flytja vitnisburð og svo er ræða prestsins af tegundinni fræðsluprédikun, sem flutt er frá altari.