Landakirkja tekur virkan þátt í Goslokahátíðinni þetta árið en boðið verður upp á tónleika sem og hina árlegu göngumessu.
Föstudaginn 7. júlí verða tónleikar í Landakirkju og hefjast þeir kl. 16:00. Fram kemur Ólafur F. Magnússon, læknir og fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík ásamt einum ástsælasta tónlistarmanni þjóðarinnar, engum öðrum en Gunnari Þórðarsyni sem gerði garðinn frægan með Hljómum, Trúbrot og fleirum. Ólafur sem gaf út plötuna „Ég elska lífið“ árið 2016 mun flytja sín lög með aðstoð Gunnars og svo mun Gunnar flytja sín lög sem mörg hver eru nú þegar orðin sígild hjá þjóðinni. Hér er svo sannarlega um áhugaverða tónleika að ræða.
Sunnudaginn 9. júlí verður svo árleg göngumessa gosloka og hefst hún kl. 11:00. Eftir stutt ávarp og bæn í Landakirkju verður gengið upp í gíg Eldfells að krossinum sem þar stendur og helgistund fer fram þar sem Drottni verða færðar þakkir fyrir goslokin. Sr. Viðar Stefánsson predikar og Kór Landakirkju syngur undir stjórn Kitty Kovács.