Aðventan og jólin verða viðburðaríkur tími í starfi Landakirkju, nú líkt og undanfarin ár. Á sunnudaginn næsta, 16. desember, þriðja sunnudag í aðventu, mun 5. bekkur Grunnskóla Vestmannaeyja flytja Helgileikinn um fæðingu frelsarans í fjölskyldumessu kl. 11:00. Það er gömul og góð hefð að 5. bekkur flytji Helgileikinn og mun sú hefð vonandi viðhaldast um ókomna tíð söfnuði okkar til heilla.
Á þriðjudagskvöld, 18. desember mun Kór Landakirkju halda árlega jólatónleika sína í safnaðarheimilinu kl. 20:00. Einsöngvari verður Hallveig Rúnarsdóttir, Balázs Stankowsky mun leika á fiðlu en stjórnandi kórsins er sem endranær, Kitty Kóvács sem einnig leikur á píanó og orgel. Aðgangseyri hefur verið stillt í hóf og kostar aðeins litlar kr. 2.500.- á tónleikana.
Helgihald á aðfangadag hefst með helgistund kl. 14:00 í Kirkjugarði Vestmannaeyja. Aftansöngurinn hefst svo kl. 18:00 og miðnæturmessan kl. 23:30.
Á jóladag verður hátíðarguðsþjónusta kl. 14:00 en Lúðrasveit Vestmannaeyja mun leika undir sálmasöng og hefur forspil kl. 13:3o.
Á annan í jólum verður hátíðarguðsþjónustu á Hraunbúðum en hún hefst kl. 14:00.
30. desember kl. 16:00, daginn fyrir gamlársdag, mun árlegt jólaball Kvenfélags Landakirkju fara fram í safnaðarheimilinu. Dansað verður í kringum jólatréð, jólalögin leikin af hljómsveit, kvenfélagið býður upp á léttar veitingar og hver veit nema að einhverja rauðklædda gesti, með gjafir beri að garði.
Á gamlársdag kveðjum við gamla árið með aftansöng kl. 18:00.
Hátíðarguðsþjónusta á nýjarsdag hefst kl. 14:00 en þar mun verðandi guðfræðineminn Kristján Birkisson prédika.
Líkt og undanfarin ár verður svo messað í Stafkirkjunni í tilefni þrettánda, 6. janúar, kl. 13:00.