Halldór Hallgrímsson kveður nú í nóvember Landakirkju og Kirkjugarð Vestmannaeyja eftir 33 ára starf. Halldór tók við stöðu kirkjugarðsvarðar og staðarhaldara Landakirkju árið 1990 og hefur unnið mikið og gott starf síðan. Bæði Landakirkja og kirkjugarðurinn hafa gengið í gegnum töluverðar breytingar á þeim tíma en safnaðarheimilið var í byggingu þegar Halldór hóf störf og aftur var byggt við það árið 2005. Kirkjugarðurinn hefur svo verið stækkaður í tvígang á tíma Halldórs. Fyrst fljótlega eftir að Halldór hóf störf og nú eru yfirstandandi stækkunarframkvæmdir í garðinum.
Gísli Stefánsson mun taka við keflinu af Halldóri en þó með breyttu sniði og gegna stöðu framkvæmdastjóra við kirkjuna og kirkjugarð. Gísli hefur undanfarin tvö ár haldið utan um rekstur beggja og mun halda því áfram ásamt því að taka yfir verkefni Halldórs.
Sóknarnefnd þakkar Halldóri vel unnin störf og samstarfsfólk þakkar ánægjulegt samstarf.