Þegar eldgosið á Heimaey var í algleymingi á vormánuðum 1973 gáfu þáverandi prestar Landakirkju, þeir sr. Þorsteinn Lúther Jónsson og sr. Karl Sigurbjörnsson, út ritið „Samfélagið – Blað Vestmannaeyinga í dreifingunni.“ Blaðið kom út í apríl 1973, stutt af Brunabótafélagi Ísland og var dreift frítt til Vestmannaeyinga sem höfðu sest að víða á landinu á meðan gosinu stóð.
Það er margt í blaðinu sem lýsir þeim tilfinningum sem Eyjamenn hafa eflaust fundið fyrir á þessum tímum sem einkenndust af mikilli óvissu um framtíðina. Það er ljóst að vinir okkar í Grindavík eru þessa stundina að upplifa álíka ömurlega óvissu í þeim raunum sem steðja að þeim. Þeir félagar sr. Þorsteinn og sr. Karl hafa án efa verið að leggja sitt af mörkum við að létta á fólki og er ritið fullt af uppörvun eins og falleg orð sr. Þorsteins Lúthers í upphafsgrein blaðsins bera merki:
„…Hlýtur því að vera deginum ljósara, að hver vinnandi maður er hlekkur í uppbyggingu heils bæjarfélags, eða samfélags, eins og mér finnst rétt að kalla þetta skipulag. Það lifir ekki nema menn tengist í vinsemd hver gagnvart öðrum, hver hafi samúð með öðrum í raunum þeirra og samgleðjist þeim, þegar lífið ber þá á höndum sér og allt baðar rósum, því að samfélag okkar mannanna á að vera bræðralag – hópur systkina, þar sem hvert mannsbarn vill heiður og hamingju hinna sem mestan, svo að friður og eining geti ríkt“
Og áfram heldur sr.Þorsteinn:
„…Það er því lífsnauðsyn fyrir okkur að halda hópinn, já og breyta ekki um lögheimili, en hafa nýverandi heimili á meginlandinu sem bráðabirgðadvalarstað. Það er einmitt af þessari nauðsyn, sem við prestarnir höfum ákveðið að gefa út þetta litla blað. Við þurfum öll að halda hópinn. Og það sem meira er, okkur er SKYLT að halda hópinn.“
Hér má svo lesa blaðið
Samfélagið – Blað Vestmannaeyinga í dreifingunni