Hugmyndin að góðgerðarsippinu kom til þegar sr. Viðar var að undirbúa sig fyrir Guðlaugssundið í mars. Velti hann þá fyrir sér hvort ekki mætti nýta hreyfinguna og tímann sem fer í hana til góðs. Datt honum þá í hug að finna einhverja hreyfingu sem hann hefði gaman að og safna áheitum fyrir gott málefni.
Sipp varð fyrir valinu en Viðar hefur gripið í það við og við undanfarin ár í sinni líkamsrækt enda ótrúlega góð þjálfun þrátt fyrir að það virki frekar einfalt. Og 10.000 sipp hljómaði vegleg tala.
Öllu meiri vandi var að velja milli góðgerðarmála en það var þó alveg ákveðið að það skyldi vera góðgerðarmál sem væri staðsett hér í Eyjum. Var ákvörðun tekin um að kynna þrjú góðgerðarmál fyrir fermingarbörnunum sem kusu síðan í leynilegri kosningu. Og Krabbavörn varð fyrir valinu hjá fermingarbörnunum.
Hér var líka kominn tenging við kirkjuna og er þetta því sameiginlegt verkefni okkar í Landakirkju að láta gott af okkur leiða um páskana. Að vissu leyti er föstudagurinn langi ágæt tenging við framtakið enda komin viss hliðstæða milli sippsins (píslarganga) og hagnaðar Krabbavarnar (upprisan). Einnig var mottumars orðinn nokkuð þétt setinn af viðburðum fyrir Krabbavörn.
Það þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi Krabbavarnar og starf félagsins. Krabbavörn er ótrúlegur stuðningur fyrir þá sem greinast með krabbamein. Sjúkdómurinn snertir okkur öll enda þekkja allir einhvern sem hefur glímt við krabbamein. Samkvæmt tölum Krabbameinsfélags Íslands þá greinast 2.000 manns árlega með krabbamein á Íslandi. Það eru að jafnaði 5-6 á dag og að einhverjir þeirra geta búið hér í Eyjum.
Fyrirkomulag sippsins verður á þá leið að kl. 11 á föstudaginn langa er guðsþjónusta í Landakirkju. Sippið byrjar í safnaðarheimilinu strax að henni lokinni eða um kl 12. Áætlað er að sippið muni taka 2-2,5 tíma og verður safnaðarheimilið opið á meðan sippinu stendur. Öllum er velkomið að kíkja við, fylgjast með og hvetja áfram. Það væri gaman fyrir Viðar að fá húsvitjun og hvatningu.
Það er okkar von að sem flestir leggi þessu mikilvæga framtaki lið. Hvetjum Viðar áfram í sippinu og styðjum og söfnum veglega fyrir Krabbavörn og mikilvægt starf félagsins sem snertir okkur öll. Látum gott af okkur leiða yfir páskana.
Reikningsnúmer og kennitala Krabbavarnar:
0582-04-250247
651090-2029