Jól í skókassa lauk í Vestmannaeyjum í dag þegar tæplega 200 skókassar sem Vestmannaeyingar höfðu föndrað voru fluttir niður á Flytjanda við Friðarhöfn, en þaðan berast þeir svo á skrifstofur KFUM og KFUK á Íslandi og þaðan til Úkraínu.
Eins og fram hefur komið var tekið á móti kössunum í Landakirkju og lögðu fjölmargir, ungir sem aldnir, verkefninu lið. Í gær var greint frá því á vef Landakirkju að 16 krakkar úr 4. EH hafi komið með skókassa í púkkið en í framhaldi af því komu fleiri hressir krakkar. Fljótlega á eftir að 4. EH hafði lokið sínu birtist 4. MK og svo í dag fengum við krakka úr 3. KM og stráka af leikskólanum Sóla í heimsókn með skókassa.
Stjórn KFUM og K í Vestmannaeyjum vill koma þakklæti sínu á framfæri við alla þá sem lögðu verkefninu lið. Ef einhverjir eiga enn eftir að skila skókössum er bent á að tekið verður á móti skókössum á skrifstofu KFUM og KFUK á Íslandi, að Holtavegi 28, til og með 12. nóvember nk.