Sr. Kristján Björnsson: Jóhannes 15.11-17. Fullkominn fögnuður. Þrír flokkar hins kristilega viðhorfs. Áherlsan á Orðið og Frelsið. Fögnuður okkar með vinum. Lífgefandi máttur kærleikans – uppspretta hans.
Við lifum á tímum breytinga sem aldrei fyrr. Oft hafa byltingar og nýjungar gengið yfir heiminn en við höfum ekki aðeins lifað mikla byltingu í tækninýjungum síðustu áratugi – líklega þær kynslóðir sem hvað mest hafa upplifað í þeim efnum. Við höfum einnig lifað gríðarlega breytingu í hugsanagangi og þróun tíðarandans. Afstaða mannsandans hefur breyst frá einum tíma til annars. Leit mannsins að hinu andlega hefur tekið á sig ótrúlega mynd í gegnum tíðina og er mannshugurinn enn að leita hins háleita. Hin mikla tækni og framfarir hafa ekki haft nein teljandi áhrif á þá leit mannsins því maðurinn er, þegar vel er að gáð, í stöðugri leit að því sem er æðra eða meira en hann sjálfur. Þannig hefur það verið frá öndverðu. Í velmegun nútímans kemur það merkilega á óvart ef það er rétt að trúhneigð mannsins hafi ekkert dalað og er ef til vill frekar að aukast ef eitthvað er. Þetta viðhorf styðja kannanir í ýmsum löndum. Var ég í síðustu viku einmitt að skoða samantekt og stefnumörkun Samabandslandakirkjunnar í Þýskalandi til ársins 2030. Þeir miða stefnumörkun sína einmitt við þá staðreynd að þótt margir hafi skráð sig úr hinum ýmsu deildum kirkjunnar í þessu fjölmenna ríki Evrópu á liðinni öld, eru innskráningar að aukast og fjölgun er staðreynd. Það er þó í það litlum mæli að menn gera meira úr öðrum staðreyndum varðandi þróun kirkjumála. Aukin trúhneigð lýsir sér meðal annars í kirkjulegri vitund í samfélaginu en ekki endilega vitund sem tengist ákveðnum söfnuði eða kirkjudeild. Hin kirkjulega vakning er þá frekar alþjóðleg en ekki bundin við ákveðnar deildir hennar. Kirkjuleg áhrif er enda að finna víðast hvar í samfélaginu. Það er sennilega líkt og hér á landi, þótt ekki hafi verið gerðar neinar teljandi kannanir á því, því miður. Ætla má þó að íbúar okkar lands séu upp til hópa kristnir en skynja sig ekki endilega sem þegnar í ákveðinni kirkjudeild. Það væri gaman að sjá hvernig fólk skynjar sína kristnu trú í þessu landi. Þangað til gerðar hafa verið góðar kannanir á því styðst ég svo sem við óljósa hugmynd um þessa skynjun fólks út frá því hvernig það skilgreinir sig í viðtölum, tilvísunum og atferli.
Þrír flokkar hins kristilega viðhorfs
Þessi veruleiki er aðallega talin skiptast í þrjá flokka eftir viðhorfi til hins kristilega. Hinn fyrsti er sá hópur fólks sem skilgreinir kristindóminn sinn mjög kirkjulega og tekur þar af leiðandi virkan þátt í starfi, lífi og þjónustu safnaðar, sem það tilheyrir. Annar þáttur í kristilegu viðhorfi birtist sem kristileg áhrif í samfélaginu. Þessi hópur aðhyllist opna og almenna kristni sem mótað hefur samfélagið – jafnvel bæjarskipulagið – og mótar kristileg stef í bókmenntum, tónlist, bíómyndum og ýmsum viðhorfum, en mótar einnig helgidaga og hátíðir samfélagsins. Þessi kristni verður hvað sýnilegust í samkennd fjöldans við áföll og stóra atburði í lífi þjóðar, hópa og einstaklinga. Þessi kristindómur er líka að vaxa því bókmenntir og kvikmyndir eru t.d. gríðarlega áhrifamiklar hvað varðar mótandi áhrif á hugsun fólks. Þriðja tegund kristindóms er hin einstaklingsbundna trúarafstaða sem sjá má í lífsviðhorfi sem er að hluta mótað af kristinni trú. Þar gildir trúarkerfi einstaklingsins í einkalífi hans umfram allar kenningar og t.d. umfram allar opinberar skýringar á helgisiðum eða hátíðum. Þessi tegund trúarvitundar er líka að vaxa.
Það besta við þetta allt er að kirkja, sem hefur aflað sér allra þessara upplýsinga og miklu meiri upplýsinga en þetta, tekur mið af þessari greiningu allri og skoðar hvernig hægt verður að koma til móts við hina nýju, margþættu og vaxandi trúarvitund fólksins. Það skemmtilega er að þessi úttekt er að eiga sér stað einmitt núna tæpum 500 árum eftir að siðbót Lúthers hófst í Þýskalandi. Við faglegar úttektir og kannanir kemur í ljós að helstu áherslur siðbótarmannsins Marteins Lúthers – þótt þær séu orðnar 500 ára – eru hvað líklegastar til að koma að gagni innan kirkjunnar aftur núna. Fer vel á því þar sem nú í ár er hafinn undirbúningur að áratug siðbótarinnar 2007 – 2017 með hápunkti í því mikla áfmælisári sem miðað hefur verið við sem upphaf siðbótarinnar.
Áherlsan á Orðið og Frelsið Það er merkilegt að áhersla Lúthers á Orðið er enn mesta og gagnlegasta leiðin til að þjóna hinum kristna nútímalega heimi okkar daga. Það er mikið fagnaðarefni að Orðið og Frelsið sem hann lagði mesta áherslu á eru þau áhersluatriði sem hvað best eru talin duga í dag. Það er fagnaðarefni af því að þá vitum við mæta vel hvernig við getum þekkt veginn í átt til árangurs í boðun og þjónustu kirkjunnar. Áherslan er ekki aðeins á það hvernig trúin á að þjóna manninum í þessum heimi í þeirri elsku sem Jesús Kristur kenndi lærisveinum sínum, heldur er rík áhersla á siðræna og andlega leiðsögn í anda þessa kærleika Jesú Krists. Það er mikil þörf nýrrar siðbótar sem kveikir vonandi í þeim púðurtunnum andlegrar vakningar sem virðast vera hér til staðar í þjóðfélaginu.
Hinn vaxandi nútímamaður, sem lifir í meiri tæknilegri og efnahagslegri velmegun en nokkru sinni hefur þekkst í mannkynssöguni, hefur einmitt meiri og ítarlegri þörf fyrir tilgangi og merkingu lífsins, ekki síður en túlkun á hversdagslegum og sérstökum atburðum í lífinu. Þessa túlkun ástundar hann sjálfur því hann er hin sjálfstætt hugsandi mannvera. En það fullnægir ekki hinum hugsandi manni að leita einn og sér þessarar túlkunnar á veruleika líðandi stundar. Til þess þarf hann samfélag sem styður skapandi hugsun, samfélag sem deilir með honum áhuga á siðrænum og trúarlegum vangaveltum um tilgang og merkingu lífsins. Nútímamaðurinn þarf vini í þessari leit sinni út úr doða og tómleika tilgangslausrar tæknihyggju. Sennilega er trúarþörf mannsins einmitt að vaxa vegna vaxandi tómhyggju.
Fögnuður okkar með vinum
En maðurinn þarf meira en bara góðan vin, þótt það sé sannarlega satt sem dægurlagasöngvarinn okkar söng, að traustur vinur getur gert kraftaverk. Það gæti verið of seint að leita vinar þegar eitthvað bjátar á, eins og hann gengur útfrá, að við vitum ekki hvort við eigum vini fyrr en reynir á. Maðurinn þarf vini sem eru samhuga í leitinni að tilgangi lífsins og merkingu, en ekki síður samfélag vina þar sem þessi áhugi fær að vaxa og dafna í þroskavænlegu umhverfi. Við stöðugt ný skref á þessari leið eykst fögnuður þeirra jafningja sem arka þarna saman allt til þess áfangastaðar að fögnuðurinn verður fullkominn. Vinátta þessi byggir ekki á von um aukna hagsæld eða von um ábata einsog í atvinnulífinu þegar menn leggja saman í peningapúkk eða markaðssjóði í eðlislægri von um gróða. Ábatinn af vináttu í vaxandi margbreytilegu trúarsamfélagi kemur á óvart. Fyrir þá sem láta á það reyna kemur í ljós að fjársjóðurinn sem myndast er ekki af þessum heimi, heldur af hinum æðra heimi þar sem kærleikurinn ríkir. Þar ríkir kærleikurinn eins og sjá má í leiðtoga vináttunnar. Hinn mikli andlegi leiðtogi allra manna er mikill vegna þess mikla kærleika sem hann ber til vina sinna, mannanna, fólksins í þessum heimi. Svo mikill er þessi kærleikur að hann hikar ekki við að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína. Svo mikill er kærleikurinn að hann kallar lærisveina sína ekki lengur þjóna heldur vini.
Lífgefandi máttur kærleikans – uppspretta hans
Þá sem leita þessa mikla kærleiks ber á leið sinni að sama brunni. Í þeim brunni er að finna uppsprettu hins lifandi vatns og frá þessari uppsprettu ranna lækir lifandi vatns. Og þetta vatn er kærleikurinn sjálfur sem streymir ekki aðeins frá þessari himnesku lind heldur streymir hann alla leið inn að hjarta hvers manns er snúið hefur huga sínum til hans sem er þessi uppspretta ástar og vináttu. Rætur okkar trúarvitundar eru leitandi af því að þeim sækir þessi þorsti og þrá eftir hinum fullkomna kærleika, fögnuði og friði. Og þá erum við lánsöm að hinn mikli kærleikur seitlar að eigin vilja um alla jörð með sínum ósegjanlega lífgefandi mætti til að vökva og næra og láta vaxa. Hann hefur sleppt kærleika sínum frjálsum svo hann geti leyst og bundið hvar sem er í mannlegu lífi. Kristur hefur útvalið okkur en við ekki hann, hann hefur ákvarðað þetta svo að við förum til og berum ávöxt sem er öllum ávöxtum meiri en þeir sem við þekkjum í þessum heimi. Hann býður okkur að elska hver annan og breiða þannig út á meðal samferðarfólksins þann kærleika sem hann sjálfur gefur. Hann býður okkur að vera vinir sínir. Það er hin mikla siðbót elsku hans.