Drengur nokkur stoppaði mann úti á götu til að spyrja hann til vegar, hvar pósthúsið væri, en þessi maður reyndist vera prestur. Presturinn leit á hann og sagði: ”Ég skal reyna að segja þér til vegar þó ég sé ekki alveg viss. En ef þú kemur í poppmessuna í kvöld, þá skal ég vísa þér veginn til himins.” Drengurinn leit á hann og sagði: “Ég held ég græði nú lítið á því, fyrst þú veist ekki einu sinni hvar pósthúsið er.”
Það er heilmikill húmor í guðspjalli dagsins þótt það vitni um stöðu Jesú í heiminum, alveg háalvarlegt mál. Það er líka húmor í sögunni af drengnum og prédikaranum, en hún vitnar líka um háalvarlegt mál fyrir kirkjuna. Heimurinn talar allt annað mál en trúin. Tungutak trúarinnar er annars eðlis en málfar heimsins. Sjáið til dæmis þetta atriði í guðspjallinu, sem er beinlínis fyndið. Maðurinn sem Jesú vann kraftaverkið á, hafði einmitt tekið rekkju sína og gengið af stað. Hafði hann ekki lengið gengið þegar Gyðingarnir, þ.e. kennimennirnir, stoppuðu læknaða manninn, sem gekk um torgið brosandi út að eyrum með rekkjuna sína undir hendinni. Og þeir stoppa hann og benda honum á að nú sé hvíldardagur og á slíkum degi megi fólk alls ekki bera rekkjur. Þeir benda honum á að hann megi ekki vinna verkið, sem felst í þessum rekkjuburði um götur og torg. En hann bregst líka alveg dásamlega við og segir nánast, eins og í dægurlaginu: ““Ekki benda á mig!” Það var sá, sem læknaði mig, sem sagði mér að taka rekkjuna og ganga.” Það var ekki ég, það var hann. Og hann sleppur við skrekkinn, þegar hann í miðri gleði sinni, áttar sig á því hvaða dagur er. Því hann veit að það á ekki að ganga um og bera rekkjur á hvíldardegi. Hann kennir velgjörðarmanni sínum um þetta augljósa hvíldardagsbrot, en það er meira sem felst í þessum viðbrögðum hans. Óðara en hann er kominn frá þeim stað, þar sem hann mætti Jesú, sver hann sig undir annað vald. Hann vill ekki skera sig úr eða brjóta gegn valdamönnum og ríkjandi hefð. Hann hefur ekki fyrr staðið alheill upp frá 38 ára veikindastríði – þökk sé Jesú – en hann sver sig frá honum og afneitar. Hann er líkur flestu öðru fólki. En það sem verra er, hann er dæmigerður fyrir það hvernig eitt manntetur á erfitt með að standa einn – heill og frjáls – gegn gríðarlega öflugu valdi mannasetninga og annarra ríg bindandi fullyrðinga.
Hann hefði í raun getað svarað Jesú sem svo, þegar frelsarinn sagði við hann: “Statt upp! Tak rekkju þína og gakk”: “Af hverju ætti ég að treysta þér? Þú veist ekki einu sinni að það er hvíldardagur og það er bannað að skokka um með rekkjur undir hendinni.” Það hefði hann gert ef hann hefði verið eins rökfastur og drengurinn, sem sá ekki ástæðu til að fylgja orðum prestsins varðandi veginn til himnaríkis, fyrst hann vissi ekki einu sinni hvar pósthúsið var í bænum.
En alveg hreint eins og presturinn reyndist þarna misstækur í orðum sínum og leiðbeiningu, má með nokkrum rétti segja að það hafi verið hálfgerð mistök hjá Jesú að gefa þessum manni heilsuna. Sá læknaði gekk beint í fangið á valdhöfum ríkjandi hefða og gekk beint undir ofurvald lögmálshyggjunnar. Mistökin, sem er ef til vill guðlast af minni hálfu að kalla svo, eru fólgin í því að hann treystir manninum, sem hann er að frelsa, og hann setur engin skilyrði fyrir lækningunni. Sá veiki þurfti ekki að játa fyrst trú á Jesú. Það er enginn formáli um traust á milli þeirra, eða nokkuð í þá veru. Jesú spyr hann einfaldlega: “Viltu verða heill?” Það er reyndar nokkuð skondin spurning í ljósi þess að maðurinn hafði í 38 ára veikindum sínum, lengi legið við lækningarlaugina við Sauðahliðið í Jerúsalem og reynt að stinga sér í hana. Það kemur fram í máli mannsins að þetta var næsta vonlaus barátta því það var alltaf einhver annar á undan ofaní, en sá einn hlaut lækningu, sem var fyrst útí eftir að vatnið tók að hrærast. Þetta er víst kallað slembiúrtak í dag. Andinn fer yfir vatnið og hrærir vatnið, en sá fyrst sem kemst ofaní læknast. Það er engin forsenda eða verðleikar, engin röð, ekki flokkun á krankleika, enginn forgangur, ekkert punktakerfi. Þetta er svona eins og ef Ólafur skólameistari kallaði nemendur á sal af og til og þeir Baldvin myndu þar draga miða úr hatti um það, hver útskrifaðist stúdent í það og það skiptið. Og eins gott fyrir nemendur að mæta í skólann alla daga. Það myndi enginn vita hvenær andinn kæmi yfir skólameistarann og hann yrði svo hrærður yfir einhverju, sem enginn vissi hvað var, að hann langaði til að útskrifa svosem eins og einn stúdent þann daginn. Þá væru menn orðnir heldur betur andlegir og hreinlega lausir við allt hið veraldlega viðmið úr lífinu.
En þannig gerist víst ekki kaupið á Eyrinni. Sjálfur vann ég á Eyrinni á mínum skólaárum og vann við að skipa upp korni og hveiti og lærði margt af lífinu sjálfu þá og í annan tíma. Heimurinn hefur sitt eigið lögmál sem keyrir hann áfram. Þetta lögmál keyrir líka fólkið áfram, sem tilheyrir þessum heimi. Í eina tíð, eiginlega fyrir nokkrum öldum, var samfélagið gegnsýrt af tungutaki og gildum hins trúarlega. Þá hefði það verið gott og blessað, sem presturinn svaraði drengnum, er vildi komast á pósthúsið. Þá hefði drengurinn skilið að upplýsingarnar þyrftu að vera kaup kaups, þ.e. hann ætlaði að vísa honum veginn á pósthúsið, ef drengurinn sækti kirkju. Þá var hið trúarlega miðlægt á öllum sviðum mannlífsins. Í nokkrar aldir hefur þetta verið að breytast verulega í hinum vestræna heimi. Á 20. öldinni fóru menn að átta sig á því að hið guð-miðlæga hafði vikið algjörlega fyrir hinu heims-miðlæga. Í ytri táknum skoðað, má ef til vill segja, að embættisklæðnaðurinn hafi verið að víkja fyrir borgaralegum fatnaði. Hápunkturinn á þessari birtingarmynd, sést svo í því að drengir sem eiga tugi og hundruði milljarða ganga um í nærbol undir staka jakkanum og í gallabuxum frekar en í jakkafötum, í skyrtu og með bindi. Og þegar guðfræðingar og aðrir trúarinnar menn, fóru að átta sig á þessum mikla viðsnúningi, fóru að koma fram fræðilegar skýringar á því, hvernig trúræknin gæti aftur vitjað heimsins. Hvernig geta trúarbrögðin aftur orðið hluti af heimsmynd nútímamannsins? Það var spurningin, því á eftirstríðsárunum höfðu hin trúarlegu gildi nánast verið sprengd í loft upp. Þetta lýsti sér í því að til dæmis hér á landi þótti það sérstakt ef ungur og vel vinnufær maður legði það fyrir sig að læra guðfræði og fara í prestinn, eins og sagt var. Svo kemur einhver óskilgreind upplifunar og kærleiksbylgja inn í nútímasamfélagið og það var þá, sem formlegur klæðnaður vék fyrir mussum og óklipptu slegnu hári. Svo fór heimurinn í nokkra hringi og menningin hoppaði svona til og frá, en mér er nær að ætla að heimshyggjan hafi samt aldrei verið meiri en einmitt núna, og hún er í algjöru hámarki á Íslandi í dag. Efnishyggjan er alsráðandi. Allt sem hún snertir verður að varðmætum sem metin eru í krónutölum á bréfi. Ekkert má sín gegn því. Það er eins og hjáróma rödd í okkar samfélagi þegar presturinn fer að tala um önnur verðmæti, sem gætu verið dýrari en gull og verðbréf. Og þá skýrist í sjálfu sér af hverju fólk leggur ekki meira uppúr því í okkar nútíma samfélagi að sækjast eftir þessum andlegu verðmætum. Hin trúarlegu gildi hafa ekki svo mikið gildi fyrir nútímamanninn. Ein birtingarmyndin er ef til vill fólgin í undrun og um leið vanmætti vestrænna manna í því að skilja viðhorf fólks, sem einmitt á okkar tímum, lifir algjörlega í hinum trúarlegu gildum í sínu samfélagi, eins og t.d. fólkið í Írak og Íran eða í mörgum öðrum íslömskum ríkjum. Í mörgum samfélögum Múhameðsmanna er stjórnarfarið einmitt byggt á trúarlegum gildum og nær það allt til dómskerfisins. Í hinum vestræna heimi er verið að vinna að því að taka Guð út úr stjórnarskrám lýðræðisríkja.
Og þá vaknar sama spurningin aftur og aftur. Hvernig geta trúarbrögðin aftur vitjað heimsins, þessa heims sem hefur ýtt þeim algerlega til hliðar? Það má segja að á níunda áratugnum, hafi orðið nokkuð ágengt í því að þá vildi fólk aftur leita til hinna trúarlegu gilda. Uppúr 1980 fer gríðarlega margt að gerast og má segja að það hafi orðið umbylting í kirkjunni á Íslandi, svo dæmi sé tekið af einhverju landi af handahófi. Þrenns konar ásjónu kirkjunnar er aftur hleypt að í heimi Íslendinga. Ein myndin er einfaldlega þessi gamla hefðbundna kirkja, sem byggir á hefðinni, hefur alltaf verið til staðar og er bara einsog hún hefur alltaf verið, trúföst og þjónandi, boðandi og biðjandi í þessum heimi. Önnur myndin er hin róttæka krafa um afturhvarf allt til þess að krefjast þess að allir snúi til bókstaflegrar trúar á boðskap Jesú Krists, en þessi mynd hefur einkum birst í sértrúarsöfnuðum og meðal nokkurra klerka í stéttinni. Þriðja myndin er hið frjálslynda viðhorf sem setur sig algjörlega inní tungutak þeirrar heimsmyndar sem hún hrærist og er hluti af, en það er þessi mynd sem telur það helst til frelsis að geta átt í samræðum við hið fræðilega, pólitíska og borgaralega vald sem er ríkjandi hverju sinni. Angi af þessu birtist í þjóðfélagsgagnrýni og jafnvel í frelsunarguðfræði kúgaðra hópa innan samfélagins. Og það má segja að í Landakirkju einni megi finna alla þessa strauma, en þó ber mest á hinni fyrstu og hinni þriðju birtingarmynd í kirkjunni okkar á þessum síðustu árum. Núverandi prestar Landakirkju myndu því vera líklegastir til að ræða við drenginn, sem spurði um pósthúsið, og segja honum til vegar. Í leiðinni myndu þeir hlusta eftir því af hverju honum lægi þessi ósköp á að komast á pósthúsið. Veikleiki þessarar birtingarmyndar trúarbragðanna hjá núverandi prestum Landakirkju felst þá í því að þeir gera ekki kröfu á drenginn að hann komi til kirkju, hvorki í upphafi samtalsins, í því miðju eða í kveðjunni að lokum, rétt áður en drengurinn hleypur með bréfið. Sú veika von, bærist þó í brjósti prestsins, að drengurinn átti sig á því fyrr eða síðar, að það er óhætt að hitta á prestinn og spyrja hann að einhverju, sem liggur á hjarta. Í guðspjalli dagsins er að finna fyrirmynd að þessari nálgun, því sjúki maðurinn, vara algerlega efnislega sinnaður. Hann ræddi á engu stigi málsins um trú eða traust eða æðri gildi. Þetta var praktískt atriði fyrir hann að komast í lækninga laugina. Þess vegna spyr presturinn einfaldlega: “Viltu komast á pósthúsið? Gjörðu svo vel.”
Á sama hátt, stendur Kristur núna við vegkantinn, eftir að hafa tekið á sig allan sjúkdóm mannkyns í þessum heimi, þá og nú og um alla framtíð, eftir krossfestinguna og það, sem er meira um vert, eftir upprisuna, og spyr einfaldlega: “Viltu verða heill? Viltu verða heil?” Fyrir verk hans og heilags anda, sem hreyfir við okkur, sé Guði dýrð, föður og syndi og heilögum anda …
Jóhannesarguðspjall 5.1-15, Við Betesdalaug.
Sr. Kristján Björnsson, sóknarprestur