Sunnudagurinn 29. júní er messa þeirra Péturs og Páls svo það passar vel að nota orðatiltækið „fyrir Pétur og Pál“. Og eigum við ekki að ræða það? Í messunni verða biblíumyndir fyrir börnin og svo er gengið til altaris. Guðspjallið er um það þegar boðið var til veislu og enginn þóttist geta komið.
Þar sem Kór Landakirkju er á söngferð í Ungverjalandi og Vín með organista sínum ætla þeir Jarl Sigurgeirsson og Gísli Stefánsson að leika á gítarana sína og velja lög sem allir geta sungið, semsagt sálmar fyrir Pétur og Pál.
Athygli Eyjamanna er vakin á því að þessa sunnudaga sumars er meiri ástæða til að koma í kirkju en oft áður og/eða hvetja gesti Vestmannaeyja til að sækja messu. Það munar um hvern mann til að bæta kirkjusóknina og verja það góða orðspor sem farið hefur af kirkjusókn Eyjamanna. Framundan er svo göngumessa á goslokahelginni og verður hún á sama tíma, byrjar í Landakirkju og síðan berst leikurinn upp að krossi Jóns við gíg Eldfells og þaðan í Stafkirkjuna þar sem endað er með kaffi á kirkjulóðinni. Setjið það í dagbækurnar líka.